Stakur viðburður

Danskir dagar 2019

Bæjarhátíðin Danskir dagar fer fram í Stykkishólmi dagana 15. til 18. ágúst.  Frá árinu 1994 hafa Hólmarar haldið Danska daga og er hátíðin 25 ára í ár.

Líkt og í fyrra er  skipulag hátíðarinnar í höndum starfsmanna safnanna ásamt fleirum.

Dagana fyrir hátíðina verður boðið upp á smærri viðburði svo sem upplestur á Vatnasafni, listasmiðju fyrir börn, 20 ára afmæliveislu Sundlaugar Stykkishólms og fleira.

Formleg setning hátíðarinnar er föstudagskvöldið 16. ágúst, þar koma fram tónlistarmaðurinn Daði Freyr og hljómsveitin Þrír. Dagskráin verður með dönsku ívafi alla helgina, meðal annars verða sýndar danskar bíómyndir í Eldfjallasafninu, grillað verður snobrød í Nýrækt og æbleskiver bakaðar í Norska húsinu svo dæmi séu tekin. Í boði verður ýmis afþreying fyrir börn á öllum aldri, má þar nefna, dorgveiðikeppni, tunnulest, brjóstsykursgerð og margt fleira. Á laugardagskvöldinu verður brekkusöngur og svo skella sér allir á ball með Stuðlabandinu í Reiðhöllinni.

Stykkishólmur hefur verið framarlega í umhverfismálum undanfarin ár og hefur tekið þá ákvörðun með undirbúningsnefnd að vera ekki með flugeldasýningu á hátíðinni líkt og fyrri ár.

 

Fyrir hönd undirbúningasnefndar Hjördís Pálsdóttir