Stakur viðburður

Roni Horn ásamt Bergþóru Snæbjörnsdóttur og Kristínu Önnu í Vatnasafni

Laugardaginn 7. september verða tónleikar og upplestur í Vatnasafni í Stykkishólmi. Bergþóra Snæbjörnsdóttir mun hefja dagskrána með upplestri síðan mun Kristín Anna halda tónleika og sjálf Roni Horn líkur svo dagskránni með upplestri.

Bergþóra Snæbjörnsdóttir les upp úr nýrri skáldsögu sem kemur út í haust. En hún vann að henni meðan hún dvaldi í rithöfundaíbúð Vatnasafnsins árið 2018. Sagan gerist að hluta til í Stykkishólmi og á Breiðafirði.

Kristín Anna, fyrrum söngkona hljómsveitarinnar Múm, mun flytja lög af plötu sinni I Must Be The Devil sem kom út á Bel-Air Glamour síðasta vor, en útgáfan er rekin af listamönnunum Ragnari Kjartanssyni og Ingibjörgu Sigurjónsdóttur.

Vatnasafnið er sköpunarverk Roni Horn sem fæddist í Bandaríkjunum árið 1955 og býr í New York. Hún lauk myndlistarnámi frá Rhode Island School of Design árið 1975 og stundaði síðan meistaranám við Yale háskóla, þaðan sem hún útskrifaðist 1978. Hún hefur hlotið alþjóðlega viðurkenningu fyrir verk sín, sem spanna allt frá skúlptúrum til bóka eða ljósmynda innsetninga. Sýningaferill hennar hófst um 1980 og hafa verk hennar verið sýnd víða um heim, meðal annars í stórum, alþjóðlegum söfnum.

Roni Horn hefur heimsótt Ísland reglulega síðan á miðjum áttunda áratugnum, þegar hún kom hingað sem ungur listnemi. Hún hefur ferðast meira um landið en margur annar og sótt innblástur í náttúru Íslands í mörgum af sínum þekktustu verkum.

Sem áður segir líkur Roni Horn dagskránni á laugardagskvöldinu með upplestri. Viðburðurinn hefst kl. 20:30 og er aðgangur ókeypis og allir boðnir hjartanlega velkomnir.